Eitt af því jákvæða við þetta flutningastand er að bronkítisinn sem ég var alveg sannfærð um að ég væri að leggjast í, með tilheyrandi hóstaköstum og veseni, virðist vera horfinn. Kannski af því að ég steingleymdi honum; ég var bara að átta mig á því núna áðan að ég hef ekki hóstað síðan í fyrrakvöld og það var af því að það var verið að reykja nálægt mér í innflutningspartíinu.
Ég er ekkert svo viðkvæm fyrir hóflegum sígarettureyk svona dagsdaglega (þótt mér sé meinilla við hann) en þegar ég er með bronkítis (eða aðrar öndunarfærapestir) fer hann alveg skelfilega illa í mig. Man eftir útgáfuteiti hjá Iðunni fyrir nokkrum árum þar sem reykingafólk gjörsamlega lagði mig í einelti (eða það fannst mér allavega); það var alveg sama hversu afskekkt skot ég fann mér, tveimur mínútum síðar kom einhver, hlammaði sér niður rétt hjá mér og kveikti í sígarettu. Ég fór heim, enda ekki viðmælandi fyrir hóstakjöltri hvort eð var. Og þegar við vorum á Seljaveginum gat ég stundum ekki gengið um stigann á milli annarrar og þriðju hæðar því þar var gengið út í reykingakompuna og það var nóg.
Auðvitað má segja að manneskja sem sjálf hefur reykt tvo pakka á dag ætti ekki að vera neitt viðkvæm fyrir svolitlum reyk. En ég er það nú samt.