Mér tókst að detta nærri kylliflöt á Skólavörðustígnum áðan með tíu kíló af kartöflum í fanginu. Nú eru það engin tíðindi að fólk sé að detta þvers og kruss þessa dagana, nóg er hálkan, en mér tókst hinsvegar að detta á alauðri gangstétt um lappirnar á sjálfri mér.
Til allrar hamingju datt ég beint ofan á kartöflurnar. Einhver kann að halda að kartöflur séu ekki beint þægilegur stuðpúði og það er vísast rétt, nema þetta voru forsoðnar Þykkvabæjarkartöflur. Ekki kannski dúnmjúkar og fjaðrandi en mun mýkri en ósoðnar kartöflur og örugglega mýkri en stéttin. Og reyndar datt ég líka ofan á mozzarellaostinn sem ég var nýbúin að kaupa hjá Guðnýju Ebbu. Hann var frekar óásjálegur á eftir en þar sem hann var að fara beint í ofninn þegar heim kom gerði það lítið til.
Reyndar er ég líklega að fá stærðar marblett á hnéð. En kartöflurnar björguðu mér frá verri slysum. Svona geta nú kartöflur verið góðar. Og það sér ekkert á þeim; eins gott því að það á að mynda þær á morgun þegar ég er búin að búa til eitthvað gott úr þeim.