Við efnafræðistúdentinn vorum að hamstra.
Í fyrsta lagi þurfti ég að birgja hann upp af matvælum og nauðsynjum áður en ég fer til útlanda; nú ætti hann að geta eldað sér eitthvað gott á hverjum degi næsta hálfan mánuðinn.
Og í öðru lagi er allt á 50% afslætti í Krambúðinni í dag. Þar standa einhverjar breytingar fyrir dyrum og verður lokað vegna þeirra næstu vikuna eða svo og það var bara ákveðið að selja allan lagerinn á spottprís. Nú er Krambúðin svosem ekkert ódýr búð en þegar vörurnar eru með helmingsafslætti er flest samt komið vel niðurfyrir Bónusverð. Ég skrapp út í búð rétt eftir að opnað var klukkan tíu og þá var búðin troðfull; ég skaust svo heim með það sem ég hafði keypt (heila 50 metra), rak efnafræðistúdentinn á fætur og tók hann og skylmingastúlkuna með mér í aðra ferð, þar sem við keyptum enn meira, þar á meðal 12 lítra af kóki (drengurinn má ekki vera þurrbrjósta á meðan ég er erlendis). Ennfremur birgðum við heimilið upp af hreinlætisvörum og fleiru. Búðin er á góðri leið með að tæmast alveg og mér skilst að það hafi legið við slagsmálum þegar tvær hagsýnar húsmæður reyndu báðar að koma höndum yfir sama kexpakkann ...