Tiltektardagur í vinnunni í dag. Það var mælst til þess að allir mættu klæddir í eitthvað gult en mér sýnist nú hafa orðið nokkur misbrestur á því, það eru náttúrlega ekki allir sem eiga gular flíkur.
Sjálf er ég ekki í neinum vandræðum, kom í gula jakkanum mínum sem er reyndar orðinn fimmtán ára gamall og er svo í broddskitugulum bol. Og til að vera nú alveg í stíl er ég í ísabellubrúnum buxum.
(Til nánari upplýsingar: Sá litur er kenndur við Ísabellu Spánardrottningu, sem ekki þótti par þrifin - hrósaði sér m.a. af því að hafa aðeins farið tvisvar í bað um dagana, þegar hún fæddist og áður en hún giftist - og því voru kjólarnir hennar gjarna brúnleitir að aftan. Segir sagan.)