Boltastelpan sem ferðafélagi:
(Núna í morgun, fullklædd og búin að bursta tennurnar): ,,Amma, klukkan er tvær mínútur í sex, viltu þá vakna núna?"
(Eftir máltíð á La Trouvaille í Soho): ,,Þetta er næstbesti veitingastaður sem ég hef borðað á í London. En McDonalds er samt bestur."
(Í Newcastle): ,,Mig langar ekkert til London. Geturðu ekki bara rænt einhverjum öðrum krakka og tekið hann með þangað og ég verð eftir hérna hjá afa og ömmu?"
(Þegar ég hafði eitthvað kvartað yfir því að við færum bara í dótabúðir og þess háttar en ekki í matar- og bókabúðir): ,,Kva, þú mátt alveg fara í þessa" (bendir á grænmetisbúð á götuhorni).
,,Ég stakk ekkert af. Ég labbaði bara hratt í burtu."
(Á hverju kvöldi og hverjum morgni, eftir að ég kenndi henni að spila hjónasæng): ,,Gerðu það, amma, plís, bara tvö spil ... "
(Minnst einu sinni á dag, alla ferðina): ,,Amma, þú ert hundleiðinleg!"
(Við móður sína, komin heim): ,,Já, það var gaman. Við amma fórum þrjátíu og þrisvar sinnum að rífast."
Jamm ... þetta var fínt ferðalag. En reyndi svolítið á þolinmæðina af og til (mína, hún hefur enga).