Gagnlega barnið og Sauðargæran fóru með okkur efnafræðistúdentinum inn í IKEA; það stóð til að kaupa nýja dýnu í rúm drengsins en þessi breidd (120 cm) virðist ekki fást lengur, ekki þar allavega, svo að við enduðum á að kaupa 140 cm boxdýnu og fætur undir hana. Að vísu á enn eftir að koma í ljós hvort nýja dýnan kemst upp stigann en það er þá hægt að hífa hana inn um svaladyrnar, annað eins hefur verið gert.
Þetta kostar hins vegar algjöra endurskipulagningu á herbergi efnafræðistúdentsins þar sem nýja rúmið kemst ekki í pláss þess gamla nema með miklum tilfærslum. Og hann er að fara á árshátíð á eftir. Kannski þarf hann að sofa á dýnunni á stofugólfinu í nótt.
Sauðargæran og efnafræðistúdentinn voru annars mjög glæsilegir í aftursætinu áðan, báðir með spegilsólgleraugu. ,,Við erum allir báðir ljótir kallar," tilkynnti Sauðargæran og bætti því við að mamma hans - sem var líka með sólgleraugu - væri góður ljótur kall.
Boltastelpan kom ekki með. Hún var í fýlu og ákvað að nota fýluna sína í að gera eitthvað leiðinlegt. Það er sjónarmið út af fyrir sig.
Við efnafræðistúdentinn forðuðumst vandlega að skoða skáphurðir í IKEA.