(function() { (function(){function b(g){this.t={};this.tick=function(h,m,f){var n=void 0!=f?f:(new Date).getTime();this.t[h]=[n,m];if(void 0==f)try{window.console.timeStamp("CSI/"+h)}catch(q){}};this.getStartTickTime=function(){return this.t.start[0]};this.tick("start",null,g)}var a;if(window.performance)var e=(a=window.performance.timing)&&a.responseStart;var p=0=c&&(window.jstiming.srt=e-c)}if(a){var d=window.jstiming.load; 0=c&&(d.tick("_wtsrt",void 0,c),d.tick("wtsrt_","_wtsrt",e),d.tick("tbsd_","wtsrt_"))}try{a=null,window.chrome&&window.chrome.csi&&(a=Math.floor(window.chrome.csi().pageT),d&&0=b&&window.jstiming.load.tick("aft")};var k=!1;function l(){k||(k=!0,window.jstiming.load.tick("firstScrollTime"))}window.addEventListener?window.addEventListener("scroll",l,!1):window.attachEvent("onscroll",l); })();

Konan sem kyndir ofninn sinn

Eldhúsreyfarar miðaldra matargúrús á Skólavörðuholtinu

28.10.03

Gallinn við að reka tilraunaeldhús heima hjá sér og vera að prófa kryddblöndur sem ekki eru komnar á markað er að maður kann ekki við að vera að setja hér uppskriftir sem enginn getur eldað eftir af því að kryddið fæst ekki - ekki ennþá allavega. Í gærkvöldi eldaði ég til dæmis alveg ágætar kjúklingabringur, kryddaðar með grófri barbeque-kryddblöndu og kashmiri masala - óvenjuleg blanda en virkaði vel - og snöggsteikti þær á grillpönnu. Steikti með þeim heila vorlauka og sérlega góða kirsiberjatómata. Ég ætlaði að fara að setja uppskriftina hér en lenti í ógöngum með kryddið, það gætu verið tíu mismunandi krydd í hvorri kryddblöndu um sig og lítið vit í að fara að búa til eitthvað svipað. Svo að þessi uppskrift bíður.

Aftur á móti er hér önnur uppskrift sem ég hef reyndar birt áður, allavega í Gestgjafanum, en það var verið að biðja mig um hana og ekkert mál að verða við því. Þetta er semsagt speldis- eða speltbrauð, en það er ekki gerlaust. Það er nefnilega reginmisskilningur sem ýmsir eru haldnir, að speltbrauð = gerlaust brauð. Það þarf alls ekki að vera. Þetta brauð er hins vegar fljótlegt og einfalt, það er bara látið lyfta sér einu sinni í forminu eins og nafnið bendir til, og er sérlega gott nýbakað.

Einlyft speldisbrauð

400 ml vatn, ylvolgt
2 tsk hunang
1 msk þurrger
500 g speldi (speltmjöl; einnig má nota heilhveiti)
2 tsk. salt
olía til að smyrja formið


Ofninn hitaður í 100°C. Meðalstórt jólakökuform penslað með olíu og hitað í ofninum í nokkrar mínútur. Vatnið sett í skál ásamt hunanginu og gerinu stráð yfir. Látið standa í nokkrar mínútur, þar til gerið er farið að freyða vel. Þá er mjölið og saltið sett út í og deigið hrært vel saman. Það ætti að vera fremur þykkt en þó tæpast svo að unnt sé að hnoða það með höndunum. Sett í heitt formið, yfirborðið sléttað og viskastykki breitt yfir. Látið lyfta sér í 30-40 mínútur. Ofninn hitaður í 220°C. Yfirborð brauðsins penslað með svolitlu vatni, formið sett í ofninn og brauðið bakað í um 25 mínútur. Þá er hitinn lækkaður í 200°C og brauðið bakað í um 20 mínútur í viðbót. Hvolft úr forminu og bankað létt í botninn; ef holt hljóð heyrist er brauðið fullbakað en annars má setja brauðið aftur í ofninn (án forms) í nokkrar mínútur. Látið kólna alveg á grind og síðan skorið í þunnar sneiðar.

|