Ég sit hérna næstum ein eftir í vinnunni og er að dunda mér við að prenta út gömul próf fyrir efnafræðistúdentinn á milli þess sem ég fikta í vef Markaðsráðs kindakjöts, sem ég hef tekið að mér að sjá um. Ég er að vísu algjör rati í öllu svona en vefumsjónarkerfið heitir nú ekki Easyweb fyrir ekki neitt svo að þetta gengur ágætlega. Held ég. Þið megið gjarna kíkja á þetta og gefa álit. Allar athugasemdir eru vel þegnar nema helst athugasemdir um leitarvélina, ég er þegar búin að biðja tölvudrengina að gera breytingar.
Auðvitað ætti ég að fara á námskeið til að læra betur á kerfið og það stendur líka til. Gallinn er að námskeiðin hafa verið haldin á fimmtudögum og það hefur verið snautt um fimmtudaga að undanförnu. Minnir mig á eitt vorið sem ég var í MA. Af þremur valgreinatímum í viku voru tveir samliggjandi á fimmtudögum og það var frí fjóra fimmtudaga í röð um vorið (ég man ómögulega hver var ástæðan fyrir einum frídeginum). Það var farið ansi hratt yfir sögu í sumum valgreinunum að minnsta kosti þá önnina - og ef ég man rétt var þetta þegar veturinn skiptist í þrjár annir.
Ferlega eru þetta mörg próf sem drengurinn ætlar að láta mig prenta.