Líklega hefði ég átt að baka með kvöldkaffinu, til heiðurs Elísabetu af Ungverjalandi, verndardýrlings bakara, hverrar messudagur er í dag. En þar sem ég var í barnaafmæli nennti ég því ekki. Hún er reyndar verndardýrlingur ýmissa annarra en bakara, til dæmis þeirra sem eiga í veseni með tengdafólk sitt, og þeirra sem eru með tannpínu. Og bæði betlara, flækinga og greifynja (en ekki greifa). Er Erzsébetbrúin í Búdapest kennd við hana? Ég man það ekki en ég veit að mig langar enn og aftur til Búdapest.
Annars fletti ég Ólafi helga upp á Patron Saints Index; ég vissi ekki að hann væri verndardýrlingur annarra en Norðmanna en sé þarna að hann þykir vænlegur til áheita ef fólk á í erfiðleikum í hjónabandi. Af hverju sem það annars er. Ég er farin að ryðga svo mikið í Noregskonungasögum - var það þetta tilstand með Ástríði drottningu og Óttar svarta? Sem ég man bara eftir af því að ég las Davíð fyrir margt löngu.