Væla minnist á paprikupottrétt úr Gestgjafanum í kommentunum hér fyrir neðan.
Það er saga á bak við þann rétt. Eða öllu heldur myndina af honum. Hún er tekin í janúarlok í miðjum flutningum af Seljavegi upp á Höfðabakka, þegar allt var á öðrum endanum, enda gengu þeir flutningar mjög hratt, innflutningspartíið var haldið réttri viku eftir að framkvæmdastjóranum barst uppsögnin á Seljaveginum. Stúdíóið var ekki til og eldhúsið innréttingalaust og tækjalaust. Ég eldaði réttinn heima og kom með hann, við ruddum pláss á skrifborði eins ljósmyndarans, fengum lánaða hrosshúð hjá Húsum og híbýlum til að hafa í bakgrunni, og mynduðum pottinn þarna innan um kassahrúgur, völundarhús af skilrúmum, plastvafðar tölvur og skrifborðsstóla, önnum kafna iðnaðarmenn, flutningamenn, stressaða blaðamenn og umbrotsmenn að leita að dótinu sínu ... Miðað við það allt kom myndin bara nokkuð vel út (ég fann ekki stærri mynd til að setja hér, þetta kemur á vefinn seinna). Rétturinn er að vísu kaldur, það var engin leið að hita hann þarna - en það sést ekki.
Ég var búin að fá tölvuna mína í samband og gat gengið frá uppskriftinni og komið henni til Margrétar prófarkalesara, sem las hana sitjandi á bókakassa þar sem hún var ekki búin að fá skrifborðið sitt og stólinn. Einhvers staðar var umbrotsmaðurinn búinn að hola sér niður til að ganga frá blaðinu, sem var alveg að fara í prentun. Og þetta hafðist.
Það er nú samt eiginlega kominn tími til að klára þessa flutninga.