Blogger er viðskotaillur þessa dagana, frekar pirrandi þegar maður veit ekki hvort færslurnar sem maður skrifar munu birtast samstundis eða ekki fyrr en næsta dag; það sem ég skrifaði í gærkvöldi er ekki komið enn þegar þetta er skrifað. En það er kannski lítið vit í að kvarta og nöldra þegar tuðið birtist svo e.t.v. ekki fyrr en allt er komið í lag.
Ég bakaði bananabrauð í fyrrakvöld og ætlaði að taka það með í vinnuna - einhverjir vinnufélagar mínir voru að kvarta yfir skorti á góðgæti þennan mánuð sem ég var í fríi -en er búin að gleyma því tvo daga í röð. Líklega þarf ég að útbúa eitthvað í staðinn, enda er satt að segja ekki mikið eftir af bananabrauðinu eftir gærkvöldið þótt efnafræðistúdentinn fúlsi við því. Hann er ekki mikið fyrir bananabragð; spurning með að bjóða honum banana með jarðarberjabragði þegar þeir koma á markað.