Sendibílstjórinn kom náttúrlega með dýnuna 25 mínútur yfir 7 og gerði sig á engan hátt líklegan til að hjálpa mér með hana upp stigann; fékkst þó til að setja hana inn í undirganginn. Ég fékk lánaðan kaðal hjá Skara til að geta halað dýnuna inn á svalirnar þegar mannskapur fengist í það; gerði ráð fyrir að það gæti orðið einhvern tíma seinnipartinn í dag, þar sem efnafræðistúdentinn var á árshátíð.
En nei, þegar drengurinn kom heim fékk hann eina af sínum snilldarhugmyndum og ákvað að gera tilraun til að vippa dýnunni upp stigann með hjálp kærustunnar. Klukkan þrjú að nóttu. Og hafði það af með erfiðismunum. Ekki veit ég hvort honum tókst að gera þetta án þess að vekja nágrannana (ekki vaknaði ég) en ég get bara ekki varist því að hugsa um hvernig Lúther og Önnu hérna á hæðinni fyrir neðan hefði orðið við ef þau hefðu litið fram til að athuga hverju þetta brölt sætti og séð fólk í sparifötunum vera að baksa tvíbreiðri dýnu upp stigann.
Og þar sem litlu munaði að dýnan sæti föst í beygjunum, þá dettur mér líka öðru hverju í hug sófinn sem sat endanlega fastur í stiganum í Dirk Gently's Holistic Detective Agency - eða var það í The Long Dark Teatime of the Soul? Það hefði nú verið glæsilegt ef nágrannarnir hefðu ætlað að skjótast niður í morgun að sækja Fréttablaðið og hvorki komist lönd né strönd af því að dýna hefði setið pikkföst í miðjum stiga.