Ég lá enn í rúminu í hádeginu, niðursokkin í nýjustu bók Kathy Reichs (eins og Patricia Cornwell en bara miklu betri, ég er hætt að nenna að lesa Cornwell) og þá var dyrabjöllunni hringt. Þetta var Boltastelpan og Maja vinkona hennar; þær höfðu verið í hjólreiðaferð á sunnudagsmorgni þegar keðjan losnaði á hjóli Boltastelpunnar og það var ákveðið að leita hjálpar hjá mér. Sennilega vegna þess að þær höfðu farið mun lengra en þeim var heimilt, Þær búa nálægt elliheimilinu Grund og hafði verið bannað að fara niður í bæ á hjólunum en voru nú komnar upp á Skólavörðuholt. Reyndar var eitthvað gruggugt við ferðalagið; ég fór að spyrja hvar bilunin hefði orðið og fékk bæði þau svör að það hefði gerst ,,nálægt Háskólanum" og ,,hérna rétt hjá". Hmm. Jæja, þær höfðu allavega ekki hjólað inn í Laugardal í leyfisleysi eins og í fyrrasumar.
Ég er vond í reiðhjólaviðgerðum, gafst strax upp og lét Boltastelpuna hringja í foreldra sína. En þar sem Formúlan var byrjuð var henni uppálagt að skilja hjólið eftir og rölta heim. Það var svo sótt þegar Formúlan var búin og Boltastelpan hjólaði aftur til Maju en ég fór með foreldrum hennar og Sauðargærunni í Ikea. Sauðargæran var búinn að uppgötva nýtt orð: ,,Já." Tregða hans til að segja já hefur vakið athygli; hann er búinn að kunna að segja nei í meira en hálft ár, hann kinkar kolli þegar hann svarar játandi, hann segir jafnvel ,,jess!", en já hefur hann ekki verið tilkippilegur að segja fyrr en núna. Annars er drengurinn frekar jákvæður - ja, það má segja að hann gæti tileinkað sér mottóið ,,I'm easy to please as long as I get my own way".