Við Boltastelpan erum búnar að fastákveða utanlandsferð í júní, bóka farmiða og setja saman plan sem innifelur nokkra daga í Kaupmannahöfn, nokkra daga í Newcastle og nokkra daga í London. Samtals kostar farið fyrir okkur báðar eitthvað rétt rúm fjörutíu þúsund, að meðtöldu flugfari með EasyJet frá Kaupmannahöfn til Newcastle. Ætli það sé ekki svipað og flugfar fyrir tvo, báðar leiðir, til Egilsstaða?
Ég er að dunda mér við að leita að gistingu í Kaupmannahöfn og London (Newcastle er ekki vandamál) en er svosem ekki búin að gera það upp við mig enn hvort okkur vantar bara stað til að sofa á (ekki samt alveg í STEP-klassanum) eða þægilega og huggulega gistingu. Þakka framkomnar ábendingar, fleiri væru vel þegnar.
Ég hef grun um að heimsóknir í tívolí, dýragarða, hryllingssöfn og annað slíkt verði ofarlega á verkefnaskránni í þessu ferðalagi, auk götumarkaða (og amman reynir kannski að laumast inn í eina og eina fornbókaverslun í leiðinni).