Jamm, hótel STEP. Þar gistum við efnafræðistúdentinn þegar við fórum með hópi fólks til Prag fyrir líklega átta árum. Hópurinn hafði upphaflega verið bókaður á annað hótel en svo breyttist það og við vorum sett á þetta. Fengum bækling með myndum frá hótelinu, sem litu alveg þokkalega út. Ljósmyndarinn sem tók þær hefði átt skilið að fá verðlaun fyrir vinnu sína, ég hef sjaldan séð myndir sem fegruðu raunveruleikann jafnmikið. Og þetta var ódýrt hótel. Mjög ódýrt.
Reyndar var þetta alls ekki hótel, heldur líklega einhvers konar gistiheimili á vegum samnefnds flutninga- eða járnbrautafyrirtækis og hafði verið ætlað starfsmönnum þess, að ég held. Einu gestirnir þar fyrir utan okkur og nokkra verkamenn voru tékkneskir grunnskólaunglingar í skólaferðalagi. Öðrum megin við hótelið voru járnbrautarteinar, þar sem gamlar og háværar lestir fóru um á flestum tímum sólarhrings. Herbergi okkar efnafræðistúdentsins var þeim megin. Beint fyrir neðan gluggann okkar var vinnusvæði þar sem verið var að rífa gamla járnbrautavagna frá því fyrir átta á morgnana. Eins gott að við erum ekki svefnstygg. Auk þess voru framkvæmdir að hefjast við endurnýjun gistihússins (sem er kannski orðið lúxushótel núna) og voru því barsmíðar og sagarhljóð allan daginn og háir hlaðar af rusli og braki sumstaðar á göngum.
Ekki er hægt að segja að herbergin hafi verið vel þrifin, allavega voru sígarettustubbar á gólfinu í herberginu okkar þegar við komum þangað. Það var þó hreint á rúmunum. Húsgögnin voru meira og minna í lamasessi. Einn vaskur var í herberginu og mig minnir að stundum hafi komið heitt vatn úr heitavatnskrananum en þori ekki að fullyrða það. Herbergið var innst á afar löngum gangi en fremst á honum var salernisaðstaðan, tvö klósett fyrir alla hæðina og hvorugu hægt að læsa. Man ekki hvort ljósið var í lagi en klósettpappír þurfti maður að leggja sér til sjálfur. Þarna var líka sturtuklefi sem ekki var heldur hægt að læsa. Þar voru heilar þrjár sturtur - án skilrúma á milli, svona eins og í sundlaugunum - og stór gluggi á veggnum andspænis, en engar gardínur fyrir honum og sturturnar blöstu því við úr gluggum húsa sem stóðu upp á hæð þar skammt undan. Mér var að vísu fjandans sama þótt einhverjir Tékkar væru hugsanlega að góna á bossann á mér úr fjarska en svo var víst ekki um alla ferðafélagana.
Á miðjum langa ganginum var hilla á vegg og þar var ein eldavélarhella. Þar hituðu tékknesku grunnskólakrakkarnir sér te eða súpu og sátu gjarna í hnapp á skítugu gólfinu og hindruðu umferð. Niðri í anddyri var svo gamall sófi og tveir stólar (sem hafði tekist að láta líta ótrúlega vel út á myndinni í bæklingnum), en auðvitað hvergi nein setustofa eða önnur aðstaða. Morgunmatur var framreiddur í kjallaranum, í sal sem minnti mig töluvert á mötuneyti MA í gamla daga, og var mjög vel útilátinn og reyndar hreint ekki slæmur miðað við annað (og miðað við að þetta var Tékkland); þar réði ríkjum stútungskerling sem vildi greinilega allt fyrir mann gera en skildi ekki orð í öðru tungumáli en tékknesku. Hið sama var reyndar að segja um aðra starfsmenn hótelsins, nema strák sem stundum var í afgreiðslunni og talaði dálitla ensku. Hann var orðinn svo frústreraður á að geta ekkert gert til að leysa úr umkvörtunarmálum eða bæta ástandið að ég held að hann hafi sagt upp á meðan við vorum þarna.
Sumar aðstæður eru þannig að maður getur annaðhvort farið að gráta eða hlæja. Við efnafræðistúdentinn - og ég held flestir í hópnum - ákváðum það strax á öðrum degi að hlæja frekar. Við höfðum ódýran stað til að sofa á og það var það sem okkur vantaði. Nóg annað að gera í Prag en hanga inni á hóteli. Það var stutt í næstu neðanjarðarlestarstöð. Það voru allavega engar veggjalýs eða flær (ég hef orðið fyrir flóabiti á hóteli í Búdapest, það var ekki gaman). Rúmin voru mátulega mjúk. Og upprifjanir frá glæsihótelinu STEP hafa orðið tilefni ótal hláturskasta allar götur síðan.
Sko, stundum vil ég gista á góðu hóteli og njóta sem mestra þæginda. Stundum vantar mig bara rúm til að sofa í, á miðsvæðis og sæmilega öruggum stað. En ég vil samt helst geta læst að mér á klósettinu. Allavega þegar ég er ein á ferð og get ekki látið neinn standa vörð á meðan ég pissa.