(function() { (function(){function b(g){this.t={};this.tick=function(h,m,f){var n=void 0!=f?f:(new Date).getTime();this.t[h]=[n,m];if(void 0==f)try{window.console.timeStamp("CSI/"+h)}catch(q){}};this.getStartTickTime=function(){return this.t.start[0]};this.tick("start",null,g)}var a;if(window.performance)var e=(a=window.performance.timing)&&a.responseStart;var p=0=c&&(window.jstiming.srt=e-c)}if(a){var d=window.jstiming.load; 0=c&&(d.tick("_wtsrt",void 0,c),d.tick("wtsrt_","_wtsrt",e),d.tick("tbsd_","wtsrt_"))}try{a=null,window.chrome&&window.chrome.csi&&(a=Math.floor(window.chrome.csi().pageT),d&&0=b&&window.jstiming.load.tick("aft")};var k=!1;function l(){k||(k=!0,window.jstiming.load.tick("firstScrollTime"))}window.addEventListener?window.addEventListener("scroll",l,!1):window.attachEvent("onscroll",l); })();

Konan sem kyndir ofninn sinn

Eldhúsreyfarar miðaldra matargúrús á Skólavörðuholtinu

2.7.08

Uppskriftir á mannamáli

Ég var að lesa bloggfærslu þar sem var kvartað yfir því - og tekið undir í kommentum - að uppskriftir væru gjarna alltof flóknar og yfirleitt ekkert á mannamáli. Og þar sem fullvíst er að enginn hefur sent frá sér fleiri uppskriftir á íslensku síðasta áratuginn en ég, þá verð ég eiginlega að taka þetta svolítið til mín.

Nú getur meira en verið að mínar uppskriftir séu of flóknar upp til hópa;

að ég noti of margar kryddtegundir (ég sá einu sinni á spjallþræði að það var sagt um tiltekna uppskrift frá mér að það væri svo mikið af kryddi sem enginn ætti til í henni; ég skoðaði uppskriftina og fyrir utan pipar og salt innihélt hún paprikuduft og steinselju (sem þó var tekið fram að mætti sleppa). En ég get fjandakornið ekki látið nægja að halda mig bara við aromat og seasonall);

að ég noti grænmeti sem fólk þekkir ekki, eins og kúrbít og sætar kartöflur (einn tilgangurinn er einmitt að hvetja fólk til að auka fjölbreytni og prófa eitthvað nýtt - og við erum jú ekki að tala um eitthvað sem fæst bara í sérverslunum - og það sem ekki er fullvíst að allir þekki í dag getur verið orðið klisja á morgun, samanber klettasalat sem enginn hafði heyrt nefnt fyrir fáeinum árum);

að ég lýsi því of nákvæmlega hvað á að gera (ég veit af langri reynslu að uppskriftahöfundur verður einfaldlega að gera ráð fyrir því að fólk sé ekki með allt á hreinu og viti t.d. ekki hvernig á að baka upp sósu eða hvernig á að sjá hvort kjúklingabringa er fullsteikt eða hvernig á að blanda þeyttum eggjahvítum saman við deig eða að smákökur á yfirleitt að baka ofarlega í ofni, þannig að ég segi þetta í uppskriftinni - og þótt það sé ekki gert þarf að muna eftir að hafa öll lykilatriði með, sá sem notar uppskriftina á ekki að þurfa að vera í vafa um hvort súkkulaðið sem hann ætlar að fara að blanda saman við deigið á að vera bráðið, rifið, saxað eða eitthvað annað eða hvenær á að strá ostinum yfir ofnréttinn);

að ég gefi magn of nákvæmlega upp (ég veit líka af langri reynslu að ef maður segir ýsuflak hafa margir ekki hugmynd um hvað þeir eiga að kaupa stórt flak og það er ansi misjafnt hvað er mikið af skinku í einu skinkubréfi og ein askja af bláberjum getur verið allt frá 125 g upp í 454 g (eða eitthvað) og þótt ein dós af rjómaosti sé svona stór núna verður kannski komin önnur stærð eftir tvö ár og því best að gefa magnið upp í grömmum ...);

að framsetningin sé of skipuleg (það er 150 ára hefð fyrir því að byrja á að telja upp allt hráefnið sem á að nota og koma síðan með verklýsingu í réttri röð og hún er ekki ástæðulaus - flestum finnst kostur að sjá strax hvað þarf að hafa til að elda réttinn og það er vissulega betra að rekast ekki á það þegar maður er í miðju kafi að maður hefði þurft að byrja á að forsjóða kartöflurnar eða rista hneturnar eða marínera kjötið);

að ég vandi málfar og framsetningu of mikið (mér finnst nefnilega að uppskriftir eigi að vera á góðri, réttri og skiljanlegri íslensku ekki síður en annar texti, allavega þær sem rata á prent, þótt framsetningin sé oft ívið frjálsari á uppskriftum sem eru bara hér á blogginu).

Sko, ég get alveg skrifað svona uppskriftir:

Fiskur með tómötum og balsamediki

Penslaðu nokkra fiskbita með olíu og settu þá í eldfast fat með hvítlauk, kirsiberjatómötum, balsamediki, basilíku og meiri olíu og kryddaðu. Bakaðu fiskinn við 220°C og berðu fram með klettasalati.

en ég vil frekar hafa þær svona:

Fiskur með tómötum og balsamediki

600-700 g þorskur, gjarna hnakkastykki (má nota annan hvítan fisk)
3 msk ólífuolía
pipar
salt
2 hvítlauksgeirar, saxaðir smátt
2 msk balsamedik
½ knippi basilíka, söxuð
250-300 g kirsiberjatómatar, vel þroskaðir
75-100 g klettasalat


Hitaðu ofninn í 220°C. Skerðu fiskinn í 4 álíka stóra bita; ef einhverjir þeirra eru þunnir má brjóta þá tvöfalda. Penslaðu bitana með olíu og kryddaðu með pipar og salti. Raðaðu þeim í eldfast mót. Dreifðu hvítlauk, balsamediki og basilíku yfir fiskbitana og kirsiberjatómötunum í kring. Dreyptu afganginum af olíunni yfir allt saman. Settu fatið í ofninn og bakaðu í um 12-16 mínútur, eða þar til fiskurinn er rétt steiktur í gegn og tómatarnir meyrir. Settu salatið á fat, raðaðu fiskstykkjunum ofan á eða við hliðina ásamt tómötunum og dreyptu vökvanum úr fatinu yfir.

Ábyggilega eru margir sem finnst seinni uppskriftin of flókin og ekki á mannamáli. En ég hefði haldið að hún væri betri fyrir byrjendur (ekki þar með sagt að þurfi að fara nákvæmlega eftir henni). Kannski hef ég rangt fyrir mér. (Og jújú, ég er alveg sammála því að sumar uppskriftir eru of flóknar og aðrar geta virst vera það þótt þær séu það ekki í raun).

En hvað finnst ykkur? Eru uppskriftirnar mínar á mannamáli eða ætti ég að breyta um stefnu?

|