(function() { (function(){function b(g){this.t={};this.tick=function(h,m,f){var n=void 0!=f?f:(new Date).getTime();this.t[h]=[n,m];if(void 0==f)try{window.console.timeStamp("CSI/"+h)}catch(q){}};this.getStartTickTime=function(){return this.t.start[0]};this.tick("start",null,g)}var a;if(window.performance)var e=(a=window.performance.timing)&&a.responseStart;var p=0=c&&(window.jstiming.srt=e-c)}if(a){var d=window.jstiming.load; 0=c&&(d.tick("_wtsrt",void 0,c),d.tick("wtsrt_","_wtsrt",e),d.tick("tbsd_","wtsrt_"))}try{a=null,window.chrome&&window.chrome.csi&&(a=Math.floor(window.chrome.csi().pageT),d&&0=b&&window.jstiming.load.tick("aft")};var k=!1;function l(){k||(k=!0,window.jstiming.load.tick("firstScrollTime"))}window.addEventListener?window.addEventListener("scroll",l,!1):window.attachEvent("onscroll",l); })();

Konan sem kyndir ofninn sinn

Eldhúsreyfarar miðaldra matargúrús á Skólavörðuholtinu

13.10.07

Breyttir tímar

Það var að renna upp fyrir mér að nú er kominn sá árstími þegar ég var vön, á Iðunnarárunum, að koma inn til Villa, hlamma mér á lausan stól (ef svoleiðis fyrirfannst þar, eða ryðja mér rúms að öðrum kosti) og segja með skelfingarsvip á andlitinu og þreytu í skrokknum: -Veistu, Villi, ég var að átta mig á því að það eru ekki nema rúmir tveir mánuðir til jóla.

Villi var auðvitað alltaf löngu búinn að átta sig á þessu, enda betur skipulagður en ég. Seinustu árin minnir mig reyndar að ég hafi komið inn og sagt: -Veistu, Villi, ég var að átta mig á að nú er kominn sá árstími þegar ég er vön að koma inn til þín ...

En nú er þessi árstími semsagt kominn og það er annað tempó í bókaútgáfunni en var. Hér um árið var venjulega fæst farið í prentsmiðju og sum handrit ekki einu sinni komin í hús. Langt í það jafnvel. Ég gæti nefnt ýmis dæmi um handrit sem komu ekki endanlega fyrr en í lok nóvember, jafnvel fyrstu daga í desember. Og komu samt út fyrir jól. Þótt enginn slægi Nostradamus út.

Árið sem ég byrjaði hjá Iðunni var fyrsta árið sem síður voru sendar fullbúnar á pappír upp í Odda og myndaðar þar. Sumt var enn sent þangað vélritað og sett á staðnum.

Nú fer næstum allt í prentun erlendis, sent þangað um netið, og þarf að vera tilbúið töluvert fyrr en áður. Og menn ófeimnari við að fresta bókum þegar handriti er ekki skilað inn í tæka tíð. Sem er ágætt.

Þannig að það er eiginlega allt að fara frá okkur eða fer í næstu viku. Engir tvöhundruð yfirvinnutímar í nóvember þetta árið ...

Og enn rúmir tveir mánuðir til jóla. Hvað á ég að gera við allan þennan tíma?

|

12.10.07

Kvöldverður að hætti Erlendar

Í gærkvöld var veisla út í Frankfurt þar sem hátt í 30 erlendum útgefendum Arnaldar Indriða (ásamt náttúrlega Arnaldi sjálfum og sendinefnd Eddu/Forlagsins) var boðið upp á þjóðlegar íslenskar og þýskar kræsingar, mjög í anda Erlendar frekar en Elínborgar. Meðal annars sviðasultu og harðfisk, auk einhverra þýskra delíkatessa. Ég hef ekki haft af því fréttir hvernig útlendingunum líkaði þetta.

Mér var ekki boðið, sem á sér þá ofureðlilegu skýringu að ég er alls ekki úti í Frankfurt, heldur sit yfir próförkum hér heima. Dröslaði meiraðsegja einni með mér heim til að lesa í kvöld. En þegar ég var í búðinni áðan stóðst ég ekki mátið og keypti mér sviðasultu og harðfisk og hangikjöt og flatbrauð.

Erlendur hefði kunnað að meta kvöldmatinn minn.

|

Sannspá völva ...

Ég var að róta í hillu hér í vinnunni og fann þá Vikuna með völvuspá fyrir 2007. Hmm. Best að sjá hvernig hún hefur ræst so far hvað varðar pólitíkina.

* Hjá Samfylkingunni mun ríkja hálfgert styrjaldarástand ... reynt verði að þrýsta á Ingibjörgu Sólrúnu að segja af sér formennsku ... Nú ríkir sundrung og mér finnst þungavigtarfólk ganga úr flokknum ...

* (Framsóknarflokkurinn) nær líklega einum þingmanni inn í Reykjavík og mér sýnist það vera Jónína Bjartmarz.

* ... miklar breytingar verði á stjórn (Frjálslynda) flokksins á næsta ári. Margrét Sverrisdóttir mun standa uppi með pálmann í höndunum ... Mér sýnist að Margrét nái að keyra flokkinn upp ... Ég sé konu, mögulega Margréti, ná miklum völdum innan flokksins.

* Sjálfstæðisflokkurinn getur valið hvern taka á með í stjórn, hvort sem það verða Vinstri grænir eða Framsókn.

* ... ég sé ýmsar áherslubreytingar í sambandi við stjórnarmyndun sem eiga eftir að höfða vel til yngra fólksins í Sjálfstæðisflokknum ...

* Vilhjálmur Vilhjálmsson borgarstjóri mun standa sig vel ...

|

11.10.07

Bing-ó

Bingi er nokkuð snjall. Algjör kúkalabbi náttúrlega. En snjall kúkalabbi. Það verður ekki af honum skafið.

Hann hefur greinilega tekið við af Finni Ingólfssyni; það má treysta því að hvað sem þú kýst, þá kýstu alltaf Binga.

Þarmeð held ég að ég tjái mig ekki meira um atburði dagsins.

|


Ég fékk send í dag áhöld frá seljanda á Ebay sem eru með þeim furðulegri sem ég á. Og á ég þó ýmislegt. Sé reyndar eftir að hafa ekki unnið pyntingatólið sem ég bauð í í sumar (þetta var eitthvert eldhúsáhald en seljandinn vissi greinilega ekkert hvað þetta var (ég vissi það ekki heldur) svo að fyrirsögnin var Torture Device???) en verðið fór of hátt. Ég var samt alveg búin að sjá út not fyrir það tæki - nei, ég var ekkert að fara út í BDSM eða eitthvað svoleiðis. Þetta voru eldhúsnot.

En allavega, þá fékk ég fjögur svona áhöld. Og ég veit til hvers á að nota þau, kannski prófa ég þau á einhverjum blásaklausum gestum áður en langt um líður. Verst að ég skuli ekki heita Ingibjörg Jónsdóttir eða eitthvað slíkt, það er nefnilega grafið IJ í silfrið á hverju áhaldi um sig.

En það verður ekki á allt kosið.

|

Höfundarnir okkar í sviðsljósinu

Óhætt að segja að höfundar útgáfunnar hafi verið áberandi í fjölmiðlum í dag. Fyrst fékk Doris Lessing nóbelinn (Forlagið gaf hana jú út hér í den) og svo eru það Dagur og Bingi, sem báðir eru náttúrlega okkar höfundar. - Já, og reyndar Svandís líka, hún var ein af ritstýrum bókarinnar með vonda nafnið.

Það er nú ástæða til að fagna þessu.

|

10.10.07

Þykkt og þunnt - og silungstætingur

Ég keypti baguettebrauð til að hafa með forréttinum. Skar sirka helminginn af því niður í mjög þunnar sneiðar (3-4 mm eða svo) og raðaði í kring en þar sem ég var að flýta mér skar ég afganginn bara í 1-2 cm þykkar sneiðar, setti í skál og bar með, ef einhver skyldi vilja meira brauð. Var þá einkum að hugsa um barnabörnin því að ég hafði ekki trú á að þau mundu vilja forréttinn. Sem reyndist náttúrlega rétt.

En bakarísstarfskrafturinn vildi bara þunnu sneiðarnar, alls ekki hinar. Og þær kláruðust auðvitað fljótt. Hún spurði hvort ekki væri til meira brauð. Ég benti henni á þykkari sneiðarnar.

-Nei, þær eru vondar, sagði hún.

-En þetta er nákvæmlega sama brauðið, sagði ég.

-Það er sama, þær eru samt vondar, sagði hún. -Get ég ekki fengið meira brauð?

Ég tók tvær af þykkari sneiðunum, fór með þær fram í eldhús og klauf þær í tvennt. Fékk á mig einhver komment um eftirlátssamar ömmur sem ofdekruðu barnabörnin. Bakarísstarfskrafturinn borðaði klofnu sneiðarnar en tautaði eitthvað um að þær væru ekki líkt því eins góðar.

Ég stakk upp á að hún kæmi því á framfæri við bakarana að fara að selja næfurþunnt skornar sneiðar. Það gæti orðið fyrr en varir þar sem fjölskyldan hefur fulla trú á að hún verði farin að stjórna bakaríinu áður en langt um líður.

En hér er allavega forrétturinn:

Reyksilungstætingur

150 g reyktur silungur
3-4 vorlaukar, græni og ljósgræni hlutinn
6-8 basilíkublöð
150 g kotasæla
nýmalaður svartur pipar
salt
salatblöð
baguettebrauð


Silungurinn roðflettur, skorinn í bita og settur í matvinnsluvél ásamt vorlauk og basilíku. Vélin látin ganga mjög stutt (best að nota púlshnappinn) - þetta á ekki að fara alveg í mauk, bara tætast í sundur. Sett í skál, kotasælunni hrært saman við og kryddað með pipar og svolitlu salti. Salatblöð sett á disk, silungsblandan sett ofan á, skreytt með t.d. basilíkulaufi og borið fram með baguettebrauði.

|

Allir útí Frankfurt - nema ég

Hálf ritstjórnin er farin á bókamessuna í Frankfurt, sem þýðir að prófarkastaflarnir á borðinu hjá mér hækka og hækka - hér eru nú skáldkonur, fangar, flugvélar og huldufólk með meiru.

En allt er þetta nú á lokasprettinum, verður jafnvel farið fyrir helgi. Mér hefur líka orðið töluvert úr verki í dag (kannski vegna fámennis??); þarf ekki einu sinni að sitja frameftir yfir þessu og er þessvegna að fara heim að steikja tvær rígvænar T-bein-steikur ofan í fjölskylduna (fimmtudagsmatarboði hefur verið fært til vegna fótboltaæfinga bakarísstarfskraftsins).

Spurning jafnvel um þríréttað - barnabörnin verða foj ef þau fá ekki desir og svo minnir mig að ég eigi eitthvert efni í forrétt sem ég þarf að koma í lóg.

Slær allavega örugglega þýskum kræsingum í Arnaldarveislunni í Frankfurt við. Leberknödelsuppe og eitthvað ... nei, það voru nú víst ýkjur.

|

9.10.07

Jarðeplaspænagerðin

Já, og ef einhver hélt að kartöflubændur í Þykkvabænum (eða við Eyjafjörð, ekki man ég hvor verksmiðjan var eldri) hefðu verið algjörir frumkvöðlar í kartöfluvinnslu, þá er það nú ekki rétt. Hér er auglýsing úr Mogganum frá 13. maí 1937:

DELICIOUS JARÐEPLASPÆNIR
(Potato Chips)

framleiddir úr 1. flokks íslenskum jarðeplum koma á markaðinn í dag.
Látið ekki standa á yður að reyna einn pakka – kosta 0,15 og 0,25.
Húsmæður, hafið það ávallt hugfast að nú, þegar engir ávextir eru fluttir til landsins og ekki er hægt að gefa börnum ávexti, þá er það besta sem hægt er að veita börnunum, það er að gefa þeim pakka af DELICIOUS JARÐEPLASPÓNUM, því allir vita, hve hollur matur jarðeplin eru.
Látið börnin reyna einn pakka í dag og þau munu biðja um annan á morgun.
JARÐEPLASPÆNIR eru notaðir með öllum mat, svo sem reyktu fleski, kjöti, fiski o.s.frv.
...
JARÐEPLASPÆNAGERÐIN, Hafnarfirði.

Reyndar held ég að Jarðeplaspænagerðin hafi orðið mjög skammlíf. Kannski börnin hafi ekki beðið um annan pakka.

|

Ekki alveg nostalgía en samt ...

Ég sló líka inn hamborgara í gagnasafni Moggans. Surprise, surprise. Ein allrafyrsta fréttin sem ég fann þar sem þeirra var getið var frá 6. ágúst 1960 og greindi frá opnun Staðarskála.

Nema hvað.

Harðsteiktur Staðarskálaborgari með beikoni, ananas og spæleggi. Frönskum, kokkteilsósu og hrásalati.

|

Pizza pie og Stóra germálið

Ég fékk fyrirspurn áðan um fyrsta pítsustaðinn. Það var eftir því sem ég best veit Smárakaffi á Laugavegi 178. Föstudaginn 4. des. 1970 var viðtal í Mogganum við Eggert Eggertsson í Smárakaffi undir fyrirsögninni Pizzan er borin fram heit. Hann segir: ,,Pizza er heimskunnur ítalskur þjóðarréttur, sem samanstendur af brauðbotni, ansjósum eða sardínum, tómötum og osti, eiginlega miklu af osti, því að hann er bæði undir og ofan á. En réttur þessi má ekki harðna, hann verður alltaf að vera ferskur og nýr. Hans verður að neyta strax. Sú raunverulega Pizza hefur skinku og aspargus að uppistöðu (svo!) og ríkulegt af kryddi, rosemary og timian og alls konar kryddi til viðbótar."

Í sama blaði er auglýst ,,heit ostapizza alltaf á boðstólum, nýbökuð, ljúffeng og saðsöm. Margs konar fyllingar, t.d. skinka, sveppir, sardínur, tómatar, aspargus og alltaf bragðsterkur ostur. Komið og reynið þennan skemmtilega rétt."

22. okt. þetta sama ár var einmitt auglýsing í Mbl. frá Osta- og smjörsölunni um ostakynningu, þar sem ,,Margrét Kristinsdóttir, húsmæðrakennari kynnir heimsfrægan ítalskan ostarétt, osta-pizzu." Þess má geta að mig minnir að ég hafi fyrst gert pítsu á kokkanámskeiði hjá Margréti 1975.

Ég sé í gömlum Moggum að árið 1975 og þar um bil hefur það verið ein helsta attraksjónin á jólafundum kvenfélaga að vera með sýnikennslu í því hvernig matbúa skuli hinn vinsæla rétt ,,Pizza".

Sumarið eftir auglýsir sjoppan á Ferstiklu að þar fáist ,,Tolona Pizza", sem ég var engu nær um en svo rakst ég á frétt frá 29. ágúst sumarið áður: ,,Veitingahúsið Útgarður (var það sama og Askur?) hefur nú hafið sölu á ítalskri pizzu og var rétturinn borinn fram í fyrsta sinn við opnun kaupstefnunnar í Laugardalshöll. Til að kynna réttinn hér á landi hefur fyrirtækið fengið hingað pizza-sérfræðing að nafni Allister Kirby frá fyrirtækinu Tolona, sem er mjög stórt á sínu sviði í Bretlandi og Bandaríkjunum."

Og 6. október 1978 er það Stóra germálið (þegar banna átti innflutning á geri) og Húsmóðir skrifar Velvakanda:
,,Ég held að það veiti ekki af að við húsmæður látum heyra í okkur varðandi germálið. Veit ráðherrann ekki að ger er notaður í margt annað en til að brugga úr. Það eru nú orðið fjöldamargar húsmæður, sem nota ger sem í sjálfu sér er mjög hollur, til baksturs brauða, bolla og fl., og hvað með pizza, sem er orðinn mjög vinsæll matur á mörgum heimilum. Það er útilokað að búa til hana án gers. Á að banna okkur að búa til hollan og góðan mat?"

|

8.10.07

Nanna fer í ruslið

Af hverju ætli næstum allur póstur sem ég sendi sjálfri mér að heiman á Eddunetfangið (sem er enn í notkun) lendi í ruslpóstinum?

Er einhver dulinn kraftur að segja mér eitthvað um mín eigin skrif?

Það skyldi nú vera.

|

7.10.07

Af lykilstarfsmönnum

Ég er ekki lykilstarfsmaður.

Þetta rann rækilega upp fyrir mér í sumar, þegar ég kom iðulega manna fyrst að húsinu í Síðumúlanum rétt um átta og kom að læstum útidyrum því enginn lykilstarfsmaður var mættur á undan mér.

Þarna biðum við iðulega saman, ég og skúringakonan, þar til einhver lykilstarfsmaður (venjulega frá Ratsjárstofnun á efri hæðinni) kom og sá aumur á okkur og hleypti okkur inn í forstofu. Eftir það var allt í lagi því ég er þó með lykil að innri hurðinni.

Nú bíð ég spennt eftir að vita hvort ég verð lykilstarfsmaður hjá Forlaginu þegar við flytjum vestureftir.

|