(function() { (function(){function b(g){this.t={};this.tick=function(h,m,f){var n=void 0!=f?f:(new Date).getTime();this.t[h]=[n,m];if(void 0==f)try{window.console.timeStamp("CSI/"+h)}catch(q){}};this.getStartTickTime=function(){return this.t.start[0]};this.tick("start",null,g)}var a;if(window.performance)var e=(a=window.performance.timing)&&a.responseStart;var p=0=c&&(window.jstiming.srt=e-c)}if(a){var d=window.jstiming.load; 0=c&&(d.tick("_wtsrt",void 0,c),d.tick("wtsrt_","_wtsrt",e),d.tick("tbsd_","wtsrt_"))}try{a=null,window.chrome&&window.chrome.csi&&(a=Math.floor(window.chrome.csi().pageT),d&&0=b&&window.jstiming.load.tick("aft")};var k=!1;function l(){k||(k=!0,window.jstiming.load.tick("firstScrollTime"))}window.addEventListener?window.addEventListener("scroll",l,!1):window.attachEvent("onscroll",l); })();

Konan sem kyndir ofninn sinn

Eldhúsreyfarar miðaldra matargúrús á Skólavörðuholtinu

19.4.06

Ég var víst búin að hóta að segja frá stöðunum sem við borðuðum á í London í þetta skiptið.

Við Boltastelpan borðuðum semsagt fyrsta kvöldið (miðvikudag) á Da Paolo, litlu ítölsku veitingahúsi í Bloomsbury. Þetta er mjög lítill staður (kannski 30 sæti uppi, eitthvað fleiri í kjallaranum) og það er mjög stutt á milli borða en okkur fannst það allt í lagi. Þjónustan var verulega alúðleg (þjónninn samt ekki kvensamur eins og sá á Vasco & Pieros Pavillion, sem ég held að ég hafi áður minnst á). Engin flottheit þarna en býsna kósí og heimilislegt.

Boltastelpan vildi ekki forrétt en við fengum í staðinn brauðkörfu handa henni og með henni komu ólífur og olía sem hún vildi reyndar ekki sjá. Ég pantaði aftur á móti disk með blöndu af kjötáleggi (cured meats) - hráskinka, pylsusneiðar og fleira - borið fram á salatbeði með grilluðum eggaldinsneiðum og mozzarella di bufala. Mjög gott og vel úti látið. Í aðalrétt fékk ég beikonvafinn skötusel, mjög góðan - man varla eftir að hafa fengið betur eldaðan skötusel - með soðnu grænmeti og kryddjurtasósu. Barnabarnið fékk verulega stóran skammt af spaghetti bolognese. Reyndar virtust allir skammtar þarna vera mjög vel útilátnir og við höfðum enga lyst á eftirmat þótt mér sýndist ýmislegt freistandi vera á matseðlinum.

Maturinn var semsagt mjög góður, þjónustan líka og ég held að það sé alveg óhætt að mæla með þessu fyrir fólk sem vill góðan ítalskan heimilismat í huggulegu umhverfi. Gott úrval á vínlistanum líka. Ef ég hef eitthvert umkvörtunarefni, þá eru það þrengslin - borðin eru lítil og stutt á milli þeirra.

Kvöldmaturinn á fimmtudagskvöld var á Lightship, gömlu timburskipi sem liggur í St. Katharine's Dock, rétt við Tower of London. Við fengum afskaplega þægilegan tveggja manna bás neðanþilja og þjónustustúlkan, sem var finnsk, snerist í kringum okkur. Að þessu sinni slepptum við forrétti en fengum brauðkörfu með mjög góðu brauði á meðan við biðum eftir aðalréttinum. Skipið er gamalt danskt vitaskip (smíðað 1877) og matseðillinn tók mið af því, var skandinavísk-bresk-franskur. Ég var svolítið smeyk um að þar væri fátt sem Boltastelpunni litist á en þegar við sáum að boðið var upp á danskar kjötbollur var hún fljót að velja þær og var bara ánægð með. Ég fékk mér ljómandi góðan lax á villihrísgrjóna- og villisveppabeði.

Á eftirréttaseðlinum var boðið upp á ,,dessert platter for two", sem við völdum okkur og reyndist innihalda heita súkkulaðiköku með mjúkri miðju, soðna peru með súkkulaðisósu, eplaböku með vanilluís og creme brulee - allt í ,,fullri stærð" svo að við vorum eiginlega að borða tvo eftirrétti á mann. Mæli alveg með þessu fyrir sælkera sem eiga erfitt með að gera upp hug sinn. Og þetta kostaði eiginlega mjög lítið því að við höfðum nýtt okkur tilboð frá Toptable: 50% afsláttur af matarreikningi (drykkir, þjónustugjald o.fl. ekki innifalið) - sem þýddi að við vorum að borga innan við 12 pund á mann fyrir matinn. En það var þarna sem við lentum í vandræðum út af kreditkortinu. Það bjargaðist þó á endanum. Ég get líka mælt með þessum stað, ekki síst þegar maður fær svona gott tilboð - en annars var maturinn ekkert sérlega dýr þarna og umhverfið óneitanlega svolítið sérstakt. Skipið vaggaði þó ögn og þetta er líklega ekki fyrir sjóveika ...

Á föstudaginn langa áttum við pantað á Fire & Stone í Covent Garden. Ég fór að hugsa um það eftir að ég pantaði borðið að það væri kannski út í hött að panta borð á pizzustað en þegar þangað kom var röð út úr dyrum og ég sá að allir voru með útprentaða staðfestingu á pöntun í höndunum - þetta er greinilega mjög vinsæll og trendí staður. Enda held ég að við höfum verið elsti og yngsti gesturinn þar. Mikið úrval af pizzum, sumar frekar spes, skipt niður í amerískar, ástralskar, afrískar, evrópskar og asískar. Ég valdi mér ástralska pizzu með kjúklingi, steiktum, rósmarínkrydduðum kartöfluteningum, maríneruðum sveppum og mozzarella og ofan á var doppa af sýrðum rjóma blönduðum sætri chilisósu (ég var reyndar ekki hrifin af þeirri samsetningu). Boltastelpan valdi San Francisco-pizzu, sem var eins lík margarítu og hægt var að komast. Ágætis pizzur en samt ekkert framúrskarandi - Eldsmiðjan er vissulega betri. Eftirréttirnir voru heldur ekkert sérstakir en þetta er skemmtilegur staður og ekkert sérlega dýr.

Við áttum hvergi pantað á laugardeginum, borðuðum hádegismat (ekkert sérstakan) á einhverjum stað í Chinatown, fengum okkur síðdegiste hjá Fortnum & Mason (ég fékk mér enskar skonsur með sultu og clotted cream, Boltastelpan Sacher-tertu) og keyptum svo bara snarl til að borða heima á hóteli. Aðallega jarðarber reyndar.

Páskamáltíðin var svo mezze á Levantine, rétt við Paddington-neðanjarðarlestarstöðina. Þetta er líbanskur staður, frekar ódýr og maturinn var fínn. Mér skilst að hann sé yfirleitt vel sóttur en greinilega ekki í hádeginu á páskadag; ég hefði ekki þurft að panta borð því að við vorum einu gestirnir allan tímann. Við pöntuðum bara átta eða tíu rétta mezze-bakka - falafel, kjötbollur, kjúklingavængir, tabbouleh, ídýfur og fleira. Ágætis brauð með. Ekki alveg að marka staðinn kannski, svona þegar stemmninguna vantar - engir aðrir gestir og þar sem við vorum ekki þarna að kvöldi dags voru engar magadansmeyjar heldur.

Þetta er svona meginhlutinn af því sem við borðuðum í London að þessu sinni. Í heildina held ég að við höfum verið ánægðastar með ítalska staðinn en ég væri líka til í að borða aftur á Vitaskipinu. Sennilega Levantine líka en þá frekar að kvöldi til. Fire and Stone - jú, það voru ýmsar forvitnilegar pizzur á seðlinum sem ég væri til í að prófa en staðurinn er samt líklega meira fyrir yngra fólk ...

|