(function() { (function(){function b(g){this.t={};this.tick=function(h,m,f){var n=void 0!=f?f:(new Date).getTime();this.t[h]=[n,m];if(void 0==f)try{window.console.timeStamp("CSI/"+h)}catch(q){}};this.getStartTickTime=function(){return this.t.start[0]};this.tick("start",null,g)}var a;if(window.performance)var e=(a=window.performance.timing)&&a.responseStart;var p=0=c&&(window.jstiming.srt=e-c)}if(a){var d=window.jstiming.load; 0=c&&(d.tick("_wtsrt",void 0,c),d.tick("wtsrt_","_wtsrt",e),d.tick("tbsd_","wtsrt_"))}try{a=null,window.chrome&&window.chrome.csi&&(a=Math.floor(window.chrome.csi().pageT),d&&0=b&&window.jstiming.load.tick("aft")};var k=!1;function l(){k||(k=!0,window.jstiming.load.tick("firstScrollTime"))}window.addEventListener?window.addEventListener("scroll",l,!1):window.attachEvent("onscroll",l); })();

Konan sem kyndir ofninn sinn

Eldhúsreyfarar miðaldra matargúrús á Skólavörðuholtinu

21.3.06

Ég á enga bernskuvinkonu en ég á nokkrar unglingsáravinkonur. Og þar stendur Sigga Dúna eiginlega upp úr af ýmsum ástæðum sem ég ætla ekki að fara að rekja.

Sigga á afmæli í dag, er ef ég man rétt fædd klukkan ellefu að morgni og er semsagt sléttum hálfum sólarhring yngri en ég. Ég er nokkuð viss um að við héldum upp á sextán ára afmælið okkar saman og ætlaði að fara að rifja það upp í gestabókinni hennar áðan nema svo áttaði ég mig á því að ég mundi bara ekkert eftir því sjálf. En það hefur örugglega verið eitthvað skrautlegt.

Ég man aftur á móti vel eftir sautján ára afmælinu okkar, eða að minnsta kosti partíi sem við létum gilda sem slíkt. Það var haldið í gömlu kaupfélagsstjóraíbúðinni á efstu hæð yfir Syðri búðinni (sem er eiginlega yst í kaupstaðnum; svona er það á Króknum). Þar bjuggu þá einhverjir Svíar sem voru að setja upp vélar í mjólkursamlaginu og voru miklir partímenn. Ég var um það bil eins kasólétt og hægt er að vera (gagnlega barnið á afmæli 25. mars) og það voru töluverðar umræður í partíinu um hvað ætti að taka til bragðs ef barnið sýndi þess merki að ætla að fæðast þarna á staðnum.

Ég fór reyndar frekar snemma heim. Sigga hafði miklar áhyggjur af mér, þar sem ég bjó á Smáragrundinni, sem þá var ein syðsta gatan á Króknum og því töluverður spölur að ganga þangað. Ég man að hún gekk manna á milli og reyndi að fá einhvern ábyrgan og tiltölulega lítið drukkinn karlmann (ég man ekkert af hverju henni fannst að það yrði að vera karlmaður) til að fylgja mér áleiðis heim, svona ef ég skyldi fá hríðarnar á miðri leið. Um akstur var náttúrlega ekki að ræða því að ég var örugglega eina edrú manneskjan á staðnum (þrátt fyrir heiðarlegar tilraunir eins Svíans til að hella mig fulla; hann vildi meina að fæðingin yrði mun auðveldari bæði fyrir mig og barnið fyrir vikið).

Mér finnst endilega að Sigga hafi haft erindi sem erfiði og einhver miskunsamur Samverji, sem ég man þó ómögulega hver var, hafi fylgt mér heim að dyrum. Eða allavega suður að Bláfelli. En það gerðist til allrar hamingju ekkert á leiðinni. Og gagnlega barnið lét bíða eftir sér í tvo eða þrjá daga í viðbót. Fæddist á mánudaginn í Sæluviku.

Síðan höfum við Sigga ekki haldið upp á afmælið okkar saman. Hver veit nema við eigum það þó eftir einhvern tíma.

Til hamingju með afmælið, Sigga mín.

|